Um Hótel Borg

Hotel Borg Exterior

Saga Hótel Borg

Hótel Borg var byggt af Jóhannesi Jósefssyni árið 1930. Jóhannes hafði getið sér góðs orðspors erlendis sem glímukappi og kom meðal annars fram með Barnum & Baileys sirkusnum og tók þátt í Ólympíuleikunum árið 1908. Hann snéri heim til Íslands efnaður maður og fyrir tilstuðlan Jónasar frá Hriflu ákvað hann að fjárfesta í byggingu lúxushótels, þess fyrsta á Íslandi.

Hornsteinn hótelsins var lagður árið 1928. Aðeins 18 mánuðum síðar, eða í janúar 1930 opnaði Hótel Borg veitingastað sinn og fjórum mánuðum síðar opnaði hótelið sjálft. Eftir opnun hótelsins var Jóhannes yfirleitt kallaður Jóhannes á Borg.

Hótel Borg er eitt af kennileitum Reykjavíkur og stendur tignarlegt við Austurvöll í göngufjarlægð við fjölbreytt mannlíf, veitingahús og verslanir.

Þetta sögufræga hótel var byggt árið 1930 eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar fyrrum byggingameistara ríkisins. Fágun og glæsileiki einkenna Borgina, sem hefur haldið sess sínum sem ein af gersemum höfuðborgarinnar um árabil.
 
Herbergin eru afar vel búin með sérsmíðuðum húsgögnum, glæsilegum parketgólfum og marmaralögðum baðherbergjum. Guðjón teiknaði bygginguna í art deco stíl sem er eins og þráður í gegnum hótelið og kemur fram jafnvel í minnstu smáatriðum.
 
Á Hótel Borg eru 99 herbergi, þar af eru 6 svítur og 1 turnsvíta. Svíturnar eru afar glæsilegar en turnsvítan hefur þá sérstöðu að búa yfir panorama útsýni yfir Reykjavík.
 
Borgin er svo miklu meira en hótel. Hún er upplifun út af fyrir sig með sál og stíl sem mynda spennandi blöndu arfleiðar og nútíma.